Ítalía bíður

Hæ hæ,

ég er að fara til Ítalíu ef það er einhver sem vissi það ekki Grin og ég ætla að vera þar í 19 dagaGrin. Núna er aðalvandamálið mitt að ákveða hvað ég ætla að gera og hvað ég á að taka með og hvað ég á að baka áður en ég fer og svoleiðis. Nokkuð viss um að ég baka nokkrar kímkökur og svo að sjálfsögðu fetaostbrauð. 

Ég held að ástæðan fyrir því að ég er svona dofin núna sé sú að brósinn minn sendi mér SMS frá Köben í gær og tilkynnti mér að hann væri farangurslaus, tölvulaus, hefði misst af fluginu til Berlínar og allt í volli. Einhver hefur náð í lykilinn af skápnum sem hann geymdi töskuna sína í á lestarstöðinni í Köben og bara hirt allt draslið. Við ætluðum að geyma dótið okkar í London á föstudaginn í nokkra klukkutíma og ég er núna að velta því fyrir mér hvort við eigum að gera það, eða hvað við eigum að gera. Maður þarf að passa sig rosalega vel að vera ekki með nein verðmæti með sér og bara úffffff. Jæja, það þýðir ekkert að sitja hér og velta sér upp úr þessu. Það bakast ekki neitt á meðan. Er farin að baka og ég brjálast ef einhver þjófur dirfist að stela matnum mínum Devil.

 


Biluð kélling í sumarfríi

Já ég er að sjá það að ég er alveg rosalega biluð. Var að lesa um átraskanir inni á femin, þar var stúlka að skrifa söguna sína með bulimiu og minn veiki haus hugsaði - "af hverju geri ég þetta ekki bara", þe. ofborða kolvetni og æli. En sem betur fer fór það ekkert lengra en það, því ég hugsaði strax á eftir - "og missa allt sem ég hef í dag í fráhaldinu. UUUUU nei takk".  Skrítið hvað þessi haus er klikkaður. Er svo heppin að hafa fundið lausnina fyrir mig. Bara gleði og meiri gleði.

Er komin í  sumarfrí, finnst það bara dálítið mikið skrítið, það er í rauninni bara ekki orðið raunverulegt fyrir mér. Í gær var ég alveg á fullu frá því að ég kom úr vinnunni og til kl. 1 um nóttina að gera hitt og þetta. Í dag erum við fjölskyldan búin að eiga alveg yndislega rólegan dag. Er eiginlega alveg gáttuð á þessu. Það eru greinilega allir úti á landi, það hefur enginn hringt nema sponsía og brósi í mig. Fannst svo mikil ró og kyrrð í garðinum. Fórum í heimsókn til ömmu húsbóndans og það var bara yndislegt. Ég held ég hafi ekki hitt hana í hálft ár og ég skammast mín rosalega fyrir það, því mig langar að vera í meira sambandi við hana, en svo þegar það er farið að líða of langt á milli, þá er ég farin að skammast mín svo mikið að ég bara sleppi því að fara, frekar en að kíkja á hana í smá stund. Skil ekkert í mér. Þarf að bæta mig mikið í þessu.

 Núna er 6 dagar í brottför og fjölskyldan að fara á límingunum yfir því. Við hlökkum öll alveg hrikalega mikið til að komast í frí. Við höfum aldrei verið öll saman í 3 vikur samfleytt áður - þannig að þetta verður skemmtileg reynsla :) - vonandi.  Erum sem sagt að fara til Ítalíu með fjölskyldunni minni í 1 viku og svo að fara að heimsækja tengdamömmu sem á heima á Ítalíu í ca 10 daga. Finnst ekki ólíklegt að það verði eitthvað um samskipta árekstra og ég finn að ég þarf að undirbúa mig undir það hvernig ég ætla að takast á við það. Ég hef oft lent í því að vera sú sem vill bæta úr öllu og þegar þessi er fúll út í hinn þá er ég stuðpúðinn þarna á milli, þannig að ég þarf að æfa mig í því að bjóða fólkinu bara að ræða saman sjálft, en ekki vera senditík á milli þeirra. En það borgar sig nú ekki að vera að búa til einhverja grýlu úr þessu, þar sem ég þarf bara að taka einn dag í einu og dagurinn í dag var góður. Ætla að biðja að morgundagurinn verði það líka. Ætla að baka smávegis, ef einhverjum skildi detta í hug að kíkja í afmælisheimsókn á mánudaginn, sem ég held nú að verði kannski ekki, þar sem mamma og pabbi og brósi verða farin út.  En þau kíkja þá kannski bara á morgun. Það kemur í ljós.

Eigið yndislegan sunnudag. 


Sumarfríið nálgast eins og óð fluga

Já það er sérstakt að hugsa sér að maður sé að fara að komast í þetta laaaaaangþráða sumarfrí. Ég er búin að vera að píska mér út - þannig að ég geti verið í 7 vikna fríi með skólastráknum mínum og mér finnst það æðisleg tilhugsun. Á bara eftir viku í vinnunni og hún verður eiginlega bara hálf, því ég ætla bara að vera ca hálfan daginn alla dagana, þar sem strákurinn er bara hálfan daginn á námskeiði. Núna er líka rétt rúm vika í afmælið mitt og 2 vikur í brottför til Ítalíu. Barasta geggjað.

Fór í fjölskyldugarðinn með guttana áðan það var æði, en ég er orðin allt of mikil kuldaskræfa, var í peysu og jakka allan tímann, á meðan þeir voru bara á bolunum - þarf að fara að gera eitthvað í þessu. 

Er að kafna úr þreytu núna, ætla að fara að sofa og vera ótrúlega spræk á morgun eða ekki - það kemur í ljós. Eigið góða helgi. 


Að hlaða inn myndum

Er núna að hlaða inn myndum á tölvuna, því ég þarf að tæma kubbinn, til þess að geta tekið nóg af myndum af frumburðinum á fótboltamóti um helgina. Ekki það að það sé nauðsynlegt að taka fullt af myndum, en mig langar mikið til þess.

Hef ekki gefið mér tíma til að skrifa eða lesa blogg undanfarið þar sem dagarnir þjóta framhjá og mér til mikillar skelfingar var ég að átta mig á að ég er að fara til útlanda eftir 3 vikur og ég hef ekki náð að undirbúa allt sem ég hefði þurft að vera búin að undirbúa, en það kemur bara með kalda vatninu. Þyrfti samt að fara að koma mér í að fá nýtt ökuskírteini, þar sem ég fæ líklegast ekki að leigja bíl á ökuskírteinið sem ég er með - því það er eiginlega ekkert eftir af myndinni - þó ég hafi grennst þá er ég samt ekki alveg horfin eins og myndin vill gefa til kynna.

En það sem hefur á dagana drifið er ótrúlega margt og mikið, t.d. fínasta ættarmót í Hrútarfirði í blíðskaparveðri, brjálæðislega mikil vinna, reddingar í að keyra skólastráknum hingað og þangað. Vinahittingar, fjölskylduhittingar og fullt af litlum smáverkefnum. Vondar fréttir og góðar fréttir, og bara einhvernveginn er ég búin að eiga mér fullt af lífi, en hef ekki alveg verið þátttakandi í því og langar til að það fari að róast aðeins núna. Væri til í eina helgi t.d. með engin plön og bara vera. En einhvernveginn er alltaf eitthvað nýtt að planast þó ég ætli mér það ekki. Þarf kannski bara að segja nei, ég ætla að vera heima og gera ekki neitt núna.

Jæja, núna fara myndirnar að verða komnar inn í tölvuna þannig að ég ætla að fara að sofa. Vona að þið eigið ljúfa helgi og ef þið eruð nálægt Akranesi, endilega verið í sambandi ;D

Knús 


Missti af fundi og borðaði næstum of seint

Dálítið mikið utan við mig í kvöld, ætlaði sko alveg rosalega mikið á fund, því ég hef ekki farið á fund í margar vikur, nema núna um helgina. En var svo mikið að hugsa um að leyfa strákunum að skemmta sér, setti sundlaug í garðinn og eitthvað, fór svo að telja flöskur og fara með þær í Sorpu og svo í Krónuna og fékk svo skilaboð um hvort ég ætlaði ekki á fund og þá var klukkan bara allt í einu orðin 7:40 og ég ennþá í búðinni og átti eftir að elda allan matinn, þannig að ég það var ekki að gera sig.  borðaði hádegismatinn minn kl. 12:20 og rétt náði að borða matinn minn kl. 20:20 - úff hvað ég varð stressuð þegar mér var bent á það af engli að ég væri að verða of sein að borða innan 8 tímanna. En þetta hafðist allt saman og ég er ekki dáin ennþá. Hefði samt viljað koma á fund. Tók bara æðruleysið á þetta og mér líður ótrúlega vel núna. Fékk mér mjólkurís, með steiktum kryddhveitikímspönnukökum - alveg sjúklega gott, þannig að ég naut matarins mjög vel, þrátt fyrir stressið.

Annars átti ég bara yndislega helgi með englunum mínum hérna heima á föstudaginn og svo með englunum í GSA á laugardag og hluta úr sunnudeginum. Þetta var bara æðislegt. Gott að koma á þessar slóðir aftur, þar sem ég hef ekki komið þangað í langan tíma. Fór upp í Álfasel - sem er hús sem amma mín á þarna og staður sem ég elska að vera á. Frábær félagsskapur. Takk fyrir mig stelpur þið eruð bara yndi.

Er farin að huga að næstu helgi, þar sem ég er að fara á ættarmót, svo þarnæsta helgi sem er fótboltamót á Akranesi, þarf að fara að skipuleggja þetta allt saman, hvernig við ætlum að sofa og svona. Gaman gaman.


Áskorun

1.ERTU SKÍRÐ/UR Í HÖFUÐIÐ Á EINHVERJUM ?

Nei

2. HVENÆR FÓRSTU SÍÐAST AÐ GRÁTA ? 

Það er orðið bara þónokkuð langt síðan, hef verið í nokkuð góðu jafnvægi undanfarnar vikur. Nema kannski núna á miðvikudaginn þegar strákurinn minn var að klára 1. bekk og var að kveðja kennarann sinn, þá táraðist ég svolítið - en grét ekki sko.

3. FINNST ÞÉR ÞÚ SKRIFA VEL ?   

Neibb 

4. HVAÐA KJÖT FINNST ÞÉR BEST?

Fannst alltaf kjúklingur, en nú er nautakjöt að koma svolítið sterkt inn. Skrýtið hvað maður breytist 

5. ÁTTU BÖRN ? EF JÁ HVE MÖRG? 

2 yndislega stráka og eina tík sem heldur að hún sé barn

6. EF ÞÚ VÆRIR EINHVER ANNAR EN ÞÚ ERT,VÆRIRÐU VINUR ÞINN?

7. NOTARÐU KALDHÆÐNI MIKIÐ ?

Já ég nota hana allt of mikið og það versta er að ég nota hana á börnin mín, þannig að þau eru orðin alveg ringluð og þurfa sálfræðing út af því.

8. FÆRIRÐU Í TEYGJUSTÖKK ?

Ég hef oft velt því fyrir mér en karlinn vill helst ekki að ég geri það, höfum horft á dálítið mörg teygjustökk sem hafa mistekist 

9. HVAÐA MORGUNMATUR ER Í UPPÁHALDI HJÁ ÞÉR ?

Það breytist alltaf af og til en í augnablikinu er það kryddpönnukaka með skyri og jarðaberjum ofaná

10. REIMARÐU FRÁ ÞEGAR ÞÚ FERÐ ÚR SKÓNUM ?

Nei þarf endilega að gera það 

11. TELURÐU ÞIG ANDLEGA STERKA ? 

Stundum held ég það, en svo koma tímar þar sem ég efast stórlega

12. HVERNIG ÍS ER Í UPPÁHALDI HJÁ ÞÉR?

Ætla að vona að það verði ís keisarynjunnar eftir helgina :D

13. HVAÐ ER ÞAÐ FYRSTA SEM ÞÚ TEKUR EFTIR Í FARI FÓLKS?

Holningin - þekki einhverra hluta vegna flesta út frá holningunni

14. RAUÐUR EÐA BLEIKUR VARALITUR ? 

Bleikur á mér, en rauður á mörgum konum

15. HVAÐ MISLÍKAR ÞÉR MEST VIÐ SJÁLFAN ÞIG?  

Neikvæðnin, fullkomnunaráráttan og letin

16. HVAÐA MANNESKJU SAKNAR ÞÚ MEST ?  

Dúddu ömmusystur minnar og svo margra vina minna sem ég hitti allt of sjaldan

17. VILTU AÐ ALLIR SEM LESA ÞETTA SVARI ÞESSUM LISTA ? 

Það er alltaf gaman að lesa svona lista hjá fólki, en ég skil fólk vel ef það gefur sér ekki tíma í þetta

18. HVAÐA LIT AF BUXUM OG SKÓM ERTU Í NÚNA ? 

bláar buxur og svartir sokkar

19. HVAÐ VAR ÞAÐ SÍÐASTA SEM ÞÚ BORÐAÐIR?  

Grillaðan grísavöðva með fetaosti, grillaðan kúrbít, papriku, sveppi og lauk með hvítlaukssósu og nú vill karlinn ekki vera nálægt mér - því ég anga af hvítlauk.

20. Á HVAÐ ERTU AÐ HLUSTA NÚNA ?

Pókermót í sjónvarpinu 

21. EF ÞÚ VÆRIR LITUR, HVAÐA LITUR VÆRIR ÞÚ ? 

Bleikur

22. HVAÐA LYKT FINNST ÞÉR BEST ?

lyktin af öllum strákunum mínum þegar þeir eru nýkomnir úr baði

23. VIÐ HVERN TALAÐIRÐU SÍÐAST Í SÍMA ?

Pabba


24. LÍKAR ÞÉR VEL VIÐ ÞÁ MANNESKJU SEM SENDI ÞÉR ÞESSAR SPURNINGAR ?

Ójá 

25. UPPÁHALDSÍÞRÓTT SEM ÞÚ HORFIR Á ?

Tja, það er nú það, ætli ég skemmti mér ekki best að horfa á strákinn minn í fótbolta

26. ÞINN HÁRALITUR ?

Íslenski sauðaliturinn .

27. AUGNLITUR ÞINN?

Græn, grá og gul

28. NOTARÐU LINSUR ?

Nei

29. UPPÁHALDSMATUR ?

 Ohh, það er svo mikið gott til, en ætli nautasteikin sem ég fékk síðustu helgi sé ekki hæst á listanum núna ásamt grísavöðvanum sem ég fékk í kvöld með fetaosti - alveg hrikalega gott. Namm namm

30. HVORT LÍKAR ÞÉR BETUR, HRYLLINGSMYND EÐA GÓÐUR ENDIR?

Mér finnst gaman að horfa á hryllingsmyndir með karlinum mínum, en ég vel sjálf myndir með góðum endi. 

31. SÍÐASTA BÍÓMYND SEM ÞÚ SÁST Í BÍÓ ?

Vó ég man það ekki. 

32. KNÚS OG KOSSAR EÐA LENGRA Á FYRSTA DEITI ?

Bara koss

33. UPPÁHALDS EFTIRRÉTTUR ?

Butternut með kanelsykri og smjöri

34. HVER ER LÍKLEGASTUR TIL AÐ SVARA ÞESSU OG BIRTA ?

dónt nó 

35. HVER ER ÓLÍKLEGASTUR ?

Bróðir minn

36. HVAÐA BÓK ERTU AÐ LESA ?

Faðir Fred, 24 stundir og AA bókina.

37. HVAÐA MYND ER Á MÚSAMOTTUNNI ÞINNI ?

Er ekki með músarmottu hérna heima

38. Á HVAÐ HORFÐIRÐU Í SJÓNVARPINU Í GÆR ?

Greys Anatomy

39. ROLLING STONES EÐA BÍTLARNIR ?

Bara bæði betra

40. HVAÐ ER ÞAÐ LENGSTA SEM ÞÚ HEFUR FARIÐ FRÁ ÍSLANDI ?

Atlanta USA held ég að sé það lengsta sem ég hef farið

41. HVERJIR ERU ÞÍNIR HELSTU EIGINLEIKAR ?

erfitt að segja 

42. HVAR FÆDDISTU ?

Í rúmi :D

43. SVÖR FRÁ HVERJUM ERTU SPENNTUST/SPENNTASTUR AÐ FÁ SJÁ?

Bobbu


32 ára á hlaupahjóli - of gömul???

Ég hef núna undanfarið farið að ná í drengina mína á hlaupahjóli, gangandi eða með hjólin þeirra og mér líkar best við hlaupahjólin, því þau eru svo auðveld í notkun og þegar ég er á leiðinni að sækja þá, þá nota ég annað og held á hinu við stýrið. Ég var alveg ofsalega mikið að velta því fyrir mér fyrst hvað ætli fólki þætti um að sjá svona aldraða konu á hlaupahjóli, en svo tók ég bara ákvörðun um það að þetta yngdi mig bara upp, þannig að núna er ég bara næstum daglega á hlaupahjólinu hérna í hverfinu, er jafnvel farin að spá í að kaupa mér mitt eigið - þetta er sko ódýrara en að fylla tankinn einu sinni og miklu hollara fyrir líkamann.

Núna er stóri strákurinn kominn í sumarfrí með tilheyrandi veseni sem við erum að upplifa í fyrsta skipti, þ.e. þetta langa sumarfrí, en sem betur fer á hann ofsalega góðan afa sem er tilbúinn að gera allt fyrir fjölskylduna. Í dag voru þeir saman og fóru niður á Tjörn og röltu um miðbæinn. Eitthvað sem ég hef allt of sjaldan gert með strákunum. 

Við fórum og keyptum gull og silfur málningu á herbergin hjá drengjunum og máluðum hluta af einum vegg með gull hjá þeim eldri og silfur hjá þeim yngri.  Nú langar mig bara í svona líka inn í mitt herbergi - en get ekki ákveðið hvort ég vil gull eða silfur. 


Blogga eða ekki blogga

Ég er í einhverri dilemmu núna, ég sagði frá því í gær á Vorblóti eins vinahópsins okkar að ég væri með bloggsíðu og gaf upp slóðina og nú er ég barasta að spá í að hætta að blogga. Tí hí hí, ég er ekki viss um að ég höndli að vinafólk okkar lesi síðuna mína, fyrir utan það að ég hef aldrei frá neinu skemmtilegu að segja. Æi ég sé til.

Það var ein sem var í matarboðinu með mér í gær sem barasta skildi alls ekki hvernig ég færi að þessu, ótrúlegur viljastyrkur sem ég hefði. Reyndi að útskýra fyrir henni að þetta hefði ekkert með viljastyrkinn að gera, en það er erfitt að reyna að segja fólki sem er komið í glas frá þessu, þannig að ég bara sat og brosti og tók við öllum hólunum sem ég fékk, bæði frá henni og öðrum.  Ég var í kjól sem mágkona mín keypti fyrir ári eða meira síðan og mér fannst svo ótrúlega flottur og mig langaði geðveikt í hann, en ég hefði sprengt hann illa utan af mér ef ég hefði prófað hann þá, en ég smellpassaði í hann núna og það var alveg ótrúlega gaman, fannst ég ótrúlega fín. Kannski aðeins of fín, en bara gaman að því.

Annars er ég að reyna að njóta þess að vera til í dag bara, strákarnir mínir eru báðir komnir heim, en annar var alla helgina hjá vini sínum og hinn fór með ömmu og afa í Stykkishólmi. Gott að hafa þá báða heima og geta verið með þeim. Finnst ég eiginlega ekkert hafa sinnt þeim undanfarnar vikur, er búin að vera svo mikið úti á landi og að gera eitthvað annað en að vera heima hjá mér, þannig að ég er mikið að spá í hvort ég eigi að vera að fara á Sæluhelgina. Veit ég hefði hrikalega gott af því og ég kæmi örugglega miklu betri mamma til baka, en er samt með geðveikt samviskubit og langar rosalega mikið til að vera bara heima í svona venjulegri fjölskylduhelgi þar sem ekkert er að gerast. Því næstu helgar eru alveg bókaðar, eiginlega þangað til við förum til Ítalíu 11. júlí. Þarf að ræða þetta við karlinn og þennan í efra og finna lausnina.

Ætla núna að fara að finna hótelherbergi handa okkur fyrstu nóttina á Ítalíu. 

Vonandi eigið þið gott sunnudagskvöld 

 


Á lífi :D

Hellú,

vildi bara láta vita af því að ég er ennþá á lífi. Er búin að vera að vinna fullt af verkefnum, bæði vinnutengdum og heimilistengdum og hef ekki einu sinni haft tíma til að lesa bloggin hvað þá skrifa eitthvað. En ákvað að setja bara nokkrar línur inn núna til að láta vita af mér.  Ég er dálítið leið yfir að hafa misst af fundum síðustu vikur, en samt er ég glöð að sjá að það virðist ekki hafa áhrif á fráhaldið mitt og má sko vera ótrúlega þakklát fyrir það, en kemst vonandi á fund á mánudaginn.

En allavegna ég vona að þið eigið yndislega fráhaldsdaga. Farið vel með ykkur.

Knús 


Klikkaðslega mikið að gera

Hellú,

hef ekki gefið mér tíma í að blogga neitt og varla til að lesa póstinn. Það er búið að vera alveg svakalega mikið að gera hjá mér eitthvað.  Byrjaði um daginn að blogga um partýið og langaði að skrifa svo margt og alveg í díteilum, en hafði svo ekki tíma til þess. En þetta var sem sagt æðislegt partý og ég skemmti mér konunglega með öllum þessum prinsessum. Takk fyrir yndislegt kvöld, geggjaðan mat og frábæran félagsskap.

Vikan er búin að vera dálítið mikið bissý. Brjálað að gera í vinnunni, skutla drengnum á æfingar, skipuleggja vorblót með vinum okkar, saumaklúbbur, skipuleggja júrópartý fyrir laugardaginn og sponsorast. Í síðustu viku vorum við að fá greiningu á yngri strákinn okkar (nú eru þeir báðir greindir með juvenile retinoschisis) sem þýðir að þeir sjá báðir mjög illa þó þeir séu með gleraugu og líklegast er eldri strákurinn með ca. 40-50% sjón ef það er hægt að tala um svoleiðis. En allavega þá flokkast þetta sem fötlun og það var svolítið áfall fyrir okkur. Ég er vön því að vera hinum megin við borðið og vera að greina börn með frávik, en svo eru bara báðir strákarnir okkar með frávik frá norminu. Við erum búin að vera að velta þessu fyrir okkur og auðvitað eru margir sem eiga miklu meira erfitt en við og þeir, en ég er samt búin að ákveða að gefa mér leyfi til að syrgja svolítið framtíðina þeirra, því ég var búin að sjá þá báða fyrir mér t.d. fá bílpróf, en nú er það óljóst hvort þeir muni geta gert það. Við vorum að fá tíma á Sjónstöðinni fyrir þann eldri og mér finnst það ótrúlega skrítið, en gott að fá þessa þjónustu samt strax, það eru ekki svona langir biðlistar þangað inn, eins og hjá okkur í vinnunni minni. Það má þakka fyrir það. En ég er sem sagt búin að vera að velta mér mikið upp úr þessu undanfarna viku og finnast ég vera svolítið misheppnuð og svona, en það er bara minn veiki hugur.

Æi vá þetta fór út í allt annað en ég var búin að skipuleggja, ætlaði ekkert að skrifa þetta hérna, en fyrst það er komið, þá hlýtur það að eiga að fara. Kannski hjálpar þetta mér eitthvað. Veit að þetta lítur út fyir að ég sé að sækjast eftir einhverjum huggunarorðum og svoleiðis, en ég held að það sé ekki málið. Held ég hafi bara þurft að losa mig við þetta. Ég er ekkert illa haldin og þunglynd eða neitt yfir þessu. Ég veit bara að þetta er krefjandi verkefni sem okkur var falið og ég ætla að reyna mitt besta til að hjálpa drengjunum mínum og reyna að auðvelda þeim lífið.

Jæja dúllurnar mínar, farið nú vel með ykkur og gangi ykkur vel í því sem þið eruð að gera. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband