Færsluflokkur: Bloggar

Notarlegt

OHHHH ég var greinilega ennþá sofandi þegar ég skrifaði þessa færslu - ýtti allavega á vitlausan takka þannig að hún birtist ekki í morgun.  En allavega ég læt hana flakka hérna. 

 

 

Vá hvað það er notarlegt að vakna svona snemma (kl 6:00) og þurfa ekki að hugsa um neinn nema sjálfan sig ;D

Ég er að fara aftur í Garðinn í dag og ég vona að ég komist þangað óhindrað, en þó það verði hindrun, þá verður það bara allt í lagi, ég bara tek því sem að höndum ber og æsi mig ekki yfir því.

Það var fundur í gærkvöldi og hann var yndislegur.  Fullt af fólki og leiðari kvöldsins var bara frábær og það var svo gott að hlusta á hana.  Síðan var spjallað eftir fundinn og ég vildi að ég hefði getað spjallað miklu lengur, en ég þurfti að fara heim svo ég gæti vaknað svona snemma í morgun og fengið mér að borða og svoleiðis.  Allavega ég verð að drulla mér af stað. Eigið góðan dag í dag dúllurnar mínar. 


Þessi vika búin

Jæja já, nú er þessi vika búin og ný vika að taka við.  Mín þarf að dru... sér á fætur kl. 6 í fyrramálið til að geta verið tilbúin úti í Garði (á Reykjanesinu) kl. 8.00 til að halda námskeið.  Það verður erfitt að þurfa að vakna svona snemma, sérstaklega þar sem ég er ekki ennþá farin að sofa, en það verður samt örugglega gaman.

Ég var að hugsa það núna um daginn hvað það er orðið mikið auðveldara að standa fyrir framan fólk og tala núna en fyrir 33 kg síðan.  Núna veit ég að ég lít nokkuð eðlileg út í fyrsta skipti á ævinni.  Allavega þegar ég er í fötunum. Þannig að fólk er ekki að spá "OMG hvað hún er feit", en núna er það örugglega bara að spá í "ætli hún sé ólétt" þar sem húðin á maganum er ekki á því að minnka eftir að hafa verið strekkt út í hið ítrasta.  Ég held að húðin treysti mér ekki - ekki það ég treysti sjálfri mér ekki í mínum eigin vilja ;D

Helgin hefur gengið alveg ágætlega hérna megin.  Ég þreif bílinn að innan og utan, ekki var vanþörf á.  Mæli ekki með því að fólk fái sér bíl með svörtum sætum og svo hund með hvít hár.  Passar ekki vel saman.  Við þurfum að fá okkur grind í skottið þannig að skvísan komist ekki í sætin.  Nú svo mæli ég ekki með því að börnum sé leyft að borða í bílnum, eða drekka, þar sem að minnsta kosti 5% af því sem þau fá virðist alltaf "detta" í sætin, á gólfið og í loftin.  Á laugardaginn tókum ég og drengirnir til hérna heima á meðan minn yndislegi maður fór að versla.  Drengjunum voru lofuð verðlaun ef þeir tækju vel til í herbergjunum sínum og þeir lögðu mikið í það að taka vel til og týndu allt undan rúmunum og allt.  En móðirin sá að hún á ennþá eftir að kenna þeim ýmislegt, t.d. að raða dótinu í hillur og svoleiðis, en þeirra markmið var að taka allt upp úr gólfinu og það tókst.  Algjörar hetjur.  

En á meðan við vorum að taka til þá uppgötvaði sá eldri að sá yngri hefði skrifað stafi á vegginn hjá sér.  Þegar sá yngri var spurður, þá kannaðist hann ekki við það. Hann vildi meina að besta vinkona hans (sem NB kann ekki að skrifa stafina) hefði gert þetta eða bara einhver annar. Kannaðist alls ekki við þetta. Þetta var dálítið erfitt.  Mamman var í því að reyna að fá hann til að segja sér satt, en hann vildi ekki viðurkenna þetta á sig.  Og núna í kvöld sagði hann mér frá því að einhver óboðinn gestur hefði komið hingað inn og lesið í bókinni sem við vorum að lesa og sá hinn sami hafi líka skrifað þessa stafi á vegginn. Það var einhver bófi sem kom inn og gerði þetta.  Það var frekar erfitt að halda andlitinu þegar hann var að segja þetta.  Hann er bara 4 ára.  Hvernig verður hann sem unglingur.  ÚFF

Þeir bræður eru mikið að pæla núna í því hver skapaði heiminn og svo hver skapaði GUÐ. Sá yngri ákvað að himinninn hefði skapað GUÐ, en stóri var ekki alveg sammála því.  Vildi að ég ætti video af þeim að ræða þetta. Æi þeir eru svo mikil krútt.  

Heyriði jæja, ég er búin að fara í eitt barnafmæli og 1 fermingarveislu í dag og það gekk svo vel, ég hafði ekki minnstu löngun í það sem var þar á borðum og það er bara vegna þess að mér tókst að taka þessu með æðruleysi og ró.  Ég er svo þakklát fyrir þetta allt saman.

Til hamingju sá sem kemst í gegnum þetta og ég vona að þú eigir yndislegan dag.  Ég er farin að tilkynna matinn minn og svo að sofa svo ég geti sagt eitthvað af viti á morgun. 


Vill einhver páskaegg???

Ég er í stórhættu núna, er ein heima með drengina mína og þeir farnir að sofa.  En þeir eiga ennþá páskaegg frammi í eldhúsi og ég finn fyrir hrikalegum vanmætti gagnvart páskaeggjunum og því sem er eftir af sælgætinu.  Ég reyndi að láta þá og vini þeirra klára þetta í dag, en það gekk ekki.  Skil ekki hvernig þeir fara að því að eiga þatta svona lengi.  Verð að sitja núna föst hérna með tölvuna ofaná mér svo ég hreyfi mig ekki fyrr en ég fer að sofa. 

Eldri sonur minn tók smá pirri/frekjukast í dag  - vældi bara og vældi því vinur hans treysti sér ekki að vera lengi úti að hjóla - því hann var að krókna úr kulda.  Ég reyndi að taka þessu með mikilli ró, en mér þótti það erfitt.  Ég bauð honum að vera lengur úti að hjóla og vinurinn gæti bara verið inni hjá mér að leika, en þá sagði stóri strákurinn minn "þú lætur eins og þú sért mamma hans, þetta er ósanngjarnt" (segist með miklum vælutón).  "Þá verður þú að koma með mér út að hjóla" (segist með miklum vælu og frekjutón).  Mikið óskaplega langaði mig til að taka greyið og henda honum inn, eða faðma hann eða eitthvað, ég barasta hreinlega vissi ekkert hvað ég átti að gera.  Það er ekkert grín að vera uppalandi.  Og ég sem þykist geta gefið öðru fólki ráð í þessum málum.   Hí, hí, en hann er yndislegastur þrátt fyrir þetta.

Ég náði þeim merka áfanga í gær að vera búin að vera í hálft ár í fráhaldi og er ótrúlega glöð með það, það var greinilega hálft ár hjá mér sem fór í einhverja vitleysu, því það er rúmt ár síðan ég frétti af MFM miðstöðinni og GSA, en ég hef líklegast þurft þetta hálfa ár til þess að æfa mig í prógramminu.  


Gleðilega páska

Hæ, hæ og gleðilega páska,

ég ætla bara aðeins að stimpla mig hérna inn í dag, þar sem það eru páskar og ég er mjög veik fyrir því sem er yfirleitt stundað á páskunum.

Í dag er ég búin að borða morgunmatinn minn, taka til, ryksuga og skúra.  Fylgjast með drengjunum mínum leita að og borða páskaeggin sín og svo núna er ég bara að hanga á netinu, ætla að vísu að fara að fá mér hádegismat bráðlega þar sem ég þarf að borða kvöldmatinn á skikkanlegum tíma með fjölskyldunni.  

Ég var í ferðalagi frá fimmtudegi til laugardags og það var bara yndislegt fyrir utan það að ég var dálítið mikið í eldhúsinu og var að þvælast í kringum hluti sem ég ætti ekkert að vera að þvælast í kringum og ég fann vanmátt minn algjörlega hellast yfir mig.  En það er svo gott að geta bara sleppt því, biðja bara þennan sem er manni æðri að hjálpa sér og hann gerir það.  Ég tók með 12 lítra af Maxinu og ég kom heim með 4 lítra (að vísu voru fleiri að fá sér - en það var ekkert miðað við það sem ég drakk af þessu).  Hugsa að næsta verkefni sem ég þarf að takast á við er Maxfíknin og tyggjófíknin, en ég ætla að vinna fyrst í matarfíkninni, nammifíkninni og sykurfíkninni.  Mér líður ótrúlega vel í dag og er sátt við að borða ekki súkkulaðið sem allir hinir fá, ég fæ nefninlega svo margt í staðinn og í kvöld ætla ég sko að fá mér snakk og sultaðan lauk - nammmmmmmmmi, miklu betra en allt súkkulaðið í heiminum.

Knús frá ofætunni miklu 


Heppin

Ég er svo ótrúlega heppin - ég ætla ekki að vera svona væmin eins og síðast, en ég er bara að spá í það að núna sit ég hérna EIN ( að vísu með hundinum) heima í fyrsta skipti í langan tíma og hangi bara á netinu. Þyrfti náttúrulega að vera að taka til og þrífa, en ég er búin að ákveða að ég ætla ekki að gera það núna, ég ætla bara að gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt þangað til strákarnir koma heim.  Svo ætla ég náttúrulega líka að gera eitthvað skemmtilegt eftir að þeir koma heim, en það verður meira skemmtilegt á þeirra forsendum en mínum forsendum.

Er að spá í að setjast upp í sófa í smá stund og prjóna peysuna sem ég byrjaði á í gær handa einu nýfæddu kríli sem ég hlakka svo mikið til að sjá - þannig að ég verð að drífa mig að prjóna hana. Í kvöld ætla ég að borða góðan mat í góðum félagsskap og fara svo á ílátakynningu og sjá hvernig við hömluleysingjarnir höndlum það að sjá svona flott ílát.  Það er ekki séns að ég fari þaðan út án þess að vera búin að ákveða að kaupa eitthvað af þeim, en ég verð að reyna það - verð að spara eins og staðan er í dag.  


Haltu mér, slepptu mér

Jæja já, ég var að skoða 2 ára gömul myndbönd af sonum mínum í gær og Guð minn góður hvað þeir voru mikil krútt og ég sakna þess að hafa þá ekki svona litla og tala svona vitlaust og yndislega.  Ég sat og grét yfir þessu hérna í gærkvöldi og svo í dag er ég svo þakklát fyrir hvað þeir eru stórir, þar sem þeir eru núna úti í garði að leika sér og ég get treyst því að þeir fara ekki neitt.  Þeir eru yndislegir saman og það yndislegasta sem ég veit.  Ég elska líf mitt eins og það er.  Ohhh ég er svo heppin.

Ég er svo þakklát fyrir:

Minn yndislega, yndislega mann sem hefur hjálpað mér að eignast þetta frábæra líf

Yndislegustu gullmolana mína tvo sem hafa gefið mér svo margt

Foreldra mína sem gera og myndu gera allt fyrir okkur

Bróður minn sem er svo falleg og góð sál og gerir allt fyrir litlu systur sína (sem honum finnst þó vera algjör dekurrófa)

Frábært heimili

Vinnuna mína sem gerir stöðugt kröfur á mig, en leyfir mér þó að eiga fjölskyldulíf

GSA og alla sem í GSA eru, því þeir hjálpa mér að eiga það líf sem ég á í dag og hjálpa mér að sjá svona skýrt hvað ég er heppin

 

Ég myndi ekki vilja breyta lífinu mínu nokkurn skapaðan hlut.  Ég er í fráhaldi og á yndislegt líf og ég er svo heppin að eiga videó upptökur af því þegar strákarnir mínir voru litlir.  Núna ætla ég að fara að taka videó af þeim þar sem þeir eru að leika sér svona fallega saman, til að eiga minningar frá þessum degi.

Knús og kram

María 


Yndislegt kvöld að baki

Nú eru hömlulausu ofæturnar farnar frá mér.  Ég bauð þeim sem voru með mér úti í London hingað í svona mynda og matarkvöld og það var gegggggggggjað.  Fékk fullt af nýjum hugmyndum og lærði hvernig maður á að búa til snakk og eftirrétt.  NAMMMMMMI. Oh þetta var svo gott og þetta eru svo yndislegar stelpur.

IMG_0770Það var eitthvað svo skrýtið, að í gærkvöldi þá var ég barasta í rólegheitunum að flokka mataruppskriftir í tölvunni og eitthvað.  Venjulega þegar ég er að bjóða fólki í heimsókn, stend ég á haus í tiltekt og einhverri geðveiki í að búa til einhverja klikkaða rétti, en núna sat ég barasta alveg sallaróleg og var bara alveg róleg á meðan þær voru hérna.  Þetta var eitthvað svo frábært, ekkert stress og ekkert vesen.  Takk yndislegu stelpur fyrir að sýna mér að þetta er hægt og er ekkert mál.  Þið eruð alltaf velkomnar til mín.

Jæja, ætli ég verði ekki að fara að gera matseðil fyrir morgundaginn og hunska mér í rúmið þar sem ég ætla að sækja stóra bró á flugvöllinn kl.  6 í fyrramálið.  Vonandi verður helgin okkur öllum góð.

 

 


Rólegheit

Er búin að vera að kafna úr rólegheitum í dag.  Við karlinn tókum til og þrifum í gær og það er barasta eitthvað svo lítið búið að vera að gera.  Strákarnir fóru báðir til vina sinna og ég fékk smá næðistíma með sjálfri mér, því karlinn fór að versla.  Barasta geggjað.  Síðan komu að vísu báðir drengirnir heim með vini sína og það er búið að vera smá stuð.  Núna er smá pása fyrir næsta stuð, en við ætlum að passa skvísur mágs míns í kvöld og þá er nú alltaf svaka stuð og það er svo notarlegt að hafa þau öll saman.  Ég barasta hreinlega dýrka að þau þekkist svona vel.

Cucurbita_moschata_ButternutSendi manninn eftir Butternut-inu í Hagkaup og hann sá eitt svona en var ekki viss um að það væri rétt og þegar hann var búinn að finna starfsmann til að aðstoða sig, þá var ákkúrat einhver að taka það :( .  En það gengur bara betur næst.  Vona að ég geti fundið það á morgun.

Takk öll fyrir að vera til.  


Ísland barn - ójá

Hæ, hæ,
langaði bara aðeins að byrja á því að tjá mig um Londonferðina.  Eða öllu heldur um flugfélagið sem ég flaug með.  Þannig er mál með vexti að þegar ég lenti með Icelandair á föstudagskvöldið og var að bíða eftir töskunni minni við færibandið sé ég allt í einu svarta tösku koma eftir bandinu sem var öll í tætlum og hlutir úr henni á færibandinu og ég sé svo strax að þetta er taskan mín því ég er búin að setja borða á hana til að þekkja hana frá öllum hinum svörtu töskunum. 100_8395 En allavega á færibandinu voru sokkar og sokkabuxur af mér og nokkrir hlutir týndust og ég þakka bara guði fyrir að það voru ekki nærfötin sem duttu úr henni.  Þetta var nógu pínlegt samt þegar ég var að tína hlutina mína í töskuna aftur og fólk að rétta mér hluti af bandinu.  Ég fer að sjálfsögðu og tilkynni þetta og maður sem ég hitti þar segir að það komi annar karl og láti mig fá nýja tösku, en ónei það er ekki gert Icelandair er eina flugfélagið sem lætur farþegana sína ekki fá nýja tösku þegar töskurnar þeirra skemmast.  Þannig að ég þurfti að þvælast með töskuna mína í Undergroundið og bað stelpurnar að vera fyrir aftan mig og fylgjast með því að ekkert dytti úr henni á leiðinni upp á hótel.  Þetta var svona frekar leiðinleg byrjun á annars geggjaðri ferð með frábærum skvísum í GSA.

Síðan ætlaði ég að hringja í Icelandair í hádeginu í dag og tékka á þessu, en þá lokar þessi þjónusta klukkan 12.  Alveg hreint dásamlegt.  En ég hlakka mikið til að vita hvernig þeir bregaðst við þessu og hvort tryggingarnar mínar eigi bara að sjá um þetta.  En það kemur bara í ljós.  Ég á allavegna alveg geggjaða tösku núna með fjórum hjólum undir sem er frábær ferðafélagi í búðir, hvort sem Icelandair eða ég sjáum um að borga hana.  En það sem ég sakna mest úr töskunni er hleðslutækið fyrir myndavélina mína.

Annars var þetta barasta æðisleg ferð í alla staði, ég kynntist GSA betur, ég kynntist Íslensku gellunum sem voru með mér mikið betur, ég lærði fullt af bæði þeim íslensku og þeim útlensku.  Bæ ðe vei það var fólk þarna frá ótrúlegustu stöðum í Evrópu t.d. Slóveníu og frá Bandaríkjunum.  Fólk sem var að byrja í fráhaldi og kona sem er búin að vera í fráhaldi í 31 ár.  Ohhh þetta var barasta æðislegt.

Ég er svo þakklát fyrir að það kom ein vinkona mín með sem ég kynntist á MFM miðstöðinni, því við erum báðar búnar að vera að berjast við að halda okkur inni í fráhaldi og hefur gengið það misjafnlega vel.  Henni gekk vel í sumar þegar ég var að falla og það hjálpaði mér svo mikið af stað aftur og ég er henni óendanlega þakklát fyrir það.  Og svo ánægð með hún vildi koma með okkur. 

Ég kynntist einni svakalegri skvísu sem er búin að vera í fráhaldi í langan tíma og ég er búin að líta þvílíkt upp til hennar frá því ég sá hana fyrst í desember og það er svo geggjað að hún er búin að upplifa svo margt að því sem ég er að upplifa núna og hún gat miðlað mér af viskubrunni sínum í sambandi við allt.  Ohhh þetta var svo geggjað.  Ég er búin að græða svo mikið á þessari ferð, þó ég hafi klárað alla peninga sem við áttum og hefðum getað eignast um næstu og þarnæstu mánaðarmót.  Þá er allavega hjartað mitt ótrúlega ríkt - - he he ein hömlulaus í öllu.

Ég gat sem sagt verslað mér alveg heilan helling, verslaði líka hrikalega mikið á strákana, þurfti allavega í fyrsta skipti á ævinni að borga yfirvigt, en það var svoooo þess virði.  Vorkenni bara greyið stelpunum sem þurftu alltaf að bíða eftir mér á flugvellinum út af veseni, en sem betur fer erum við allar í þessu dásamlega prógrammi þannig að allir þurftu að æfa sig í að fara með æðruleysisbænina og njóta þess að vera til.  Ég allavega er ótrúlega sátt við ferðina, ferðafélagana og æðri máttinn minn.

 Takk allar fyrir þolinmæðina og frábæra ferð og ég vona að ég fái að njóta þess heiðurs að fara aftur með ykkur í svona ferð og þá held ég að ég verði búin að vinna mig aðeins úr hömluleysinu í versluninni - vona allavega að mig vanti ekki jafnmikið af fötum og mig vantaði núna.

Eigið yndislega daga. 


London

Ég ætlaði bara að stimpla mig aðeins hérna inn áður en ég fer til London, fer út á völl eftir klukkutíma.  Er með 17 kíló af mat.  Veit ekki alveg af hverju ég tek svona mikið af mat með mér ég á ekki að borða 17 kíló á 4 dögum. Ég ætti kannski að reyna að koma með 32 kílóa tösku heim, til að sjá hversu mikið það er sem ég er búin að vera að rogast með hingað til.

Ég er allavega orðin alveg hrikalega spennt og vona að við eigum eftir að eiga góða ferð þarna saman.

 Hérna er svo veðurspáin fyrir ykkur sem viljið vita hvernig við höfum það þarna úti.

 Hérna er hótelið.

Hérna er um Round up-ið 

Þá hafið þið það á hreinu og vitið hvar er hægt að ná í mig :D

 Vonandi gengur öllum vel með það sem þeir eru að gera.  

Knús,

María 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband