4 drengir

Hæ, hæ

hvað segið þið nú gott?  Er svona að spá í að fara að koma mér í rúmið, en ákvað að skella inn smá færslu hérna.  Þó ég hafi nú ekki frá miklu að segja.  Dagurinn í dag er búinn að vera mjög fínn, svona frá því kl. 5 í morgun.  Kallinn veiktist nefninlega heiftarlega í nótt, aftur og ég var hér hlaupandi fram og til baka í svona hálftíma að reyna að lina þjáningar hans, en mér tókst það ekki.  Líkaminn hans sá bara um það sjálfur, en mér fannst ég samt verða að gera eitthvað - gat ekki bara legið uppi í rúmi og horft á hann engjast.  En allavega hann er orðinn nokkuð góður núna.

Nú vinnan gekk ágætlega, ég var í fyrsta skipti í langan tíma bara við skrifborðið mitt í dag og mér tókst einhvernveginn ekki að klára neitt, því ég var alltaf að fá einhverja tölvupósta og símtöl sem þurfti að vinna strax í, þannig að ég sit bara uppi með fleiri verkefni sem þarf að vinna núna.  En einhvernveginn hlýt ég að ná að klúðra mig fram úr þeim. Núna er síðasta vikan hjá nemanum mínum að renna upp og ég verð að viðurkenna það að mér finnst ég ekki hafa staðið mig nógu vel gagnvart henni. Hefði viljað gera meira með henni og sýna henni meira, en það er ekki hægt að gera allt. Núna er ég mest að velta því fyrir mér (ekki af því að ég sé stjórnsöm - nei nei) hvar ég geti komið henni í vinnu þannig að ég hitti hana örugglega í framtíðinni og að hún verði að vinna á mínum vettvangi. Ha ég eigingjörn, nei það er ekki ég. 

Þegar ég kom heim kúrði ég aðeins hjá kallinum uppi í rúmi og sofnaði sem var yndislegt, fór svo og náði í þá.  Fór síðan með stóra strákinn minn á fótboltaæfingu hjá vini hans og hann er búinn að taka ákvörðun um að nú vilji hann byrja að æfa fótbolta, sem er bara yndislegt, en ég hef miklar áhyggjur af honum því hann er bara með ca 40% sjón ef hægt er að segja svoleiðis - og á örugglega ekki eftir að geta fylgt boltanum eins vel eftir og aðrir, og hugsanlega nær hann ekki sendingum sem beint er til hans og svona, en núna er ég farin að búa mér til áhyggjur sem ég ætla ekki að gera.  Ég ætla að fara að finna skó handa honum á morgun fyrir inniþjálfunina og svo þarf ég að spá í útiskóm líka, en ég ímynda mér að það verði dýrt að kaupa þetta allt, þannig að ég ætla að byrja á innanhússskóm og skoða svo restina þegar ég sé hvort hann helst í þessu - ef einhver ykkar hefur reynslu af þessu, þá þigg ég öll góð ráð.

En það sem þessi færsla átti nú eiginlega að vera um var það að hjá okkur í nótt eru 2 aukadrengir og ég er svo glöð að geta veitt drengjunum mínum það að hafa vini sína hjá sér og þetta gangi allt saman vel.  Ég hef ekki pirrast eina sekúndu yfir þeim, þó þeir hafi verið hlaupandi hérna og með þvílíkan hávaða, þeir gætu ekki sofnað af því hinir voru með svo mikil læti og þeir lágu og hvísluðust á í smá tíma. Ég sat bara og naut þess og hugsaði til þess tíma þegar ég fékk að gista hjá vinkonum mínum.  Ég er bara svo heppin að strákarnir mínir eiga vini sem vilja vera hjá þeim og vinum þeirra líður nógu vel hjá okkur að þeir treysta sér í að sofa hérna þó þeir séu svona ungir. Er þetta ekki ótrúlegt.

Jæja dúllurnar mínar, eigið góða helgi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Dóra

Forréttindi, forréttindi............ Að vilja og geta verið til staðar fyrir veikan maka, forréttindi að geta leyft börnunum sínum að vera í íþróttum og hafa rænu á að græja þau rétt og vel upp. Forréttindi að vera traustsins verð að annarra manna börn "fá" að vera hjá manni og að vera með heimili sem börnunum líður það vel á að þau vilji gista. Forréttindi að vera með menntun og vinnu og vera traustsins verð að fá að vera með nema. Þetta er það sem rann í gegnum minn huga þegar ég var að lesa færsluna.

p.s. Þú stjórnsöm og eigingjörn???? Nauts,,,,, ef ég samþykki það þá er ég að segja að ég sé það líka afþví að við erum með sömu bilun í hausnum og ég er hvorugt, svo að þú sleppur

Helga Dóra, 5.4.2008 kl. 00:28

2 identicon

Elsku María mín!  Þakka þér fyrir að blogga og vera svona einlæg.  Gaman að heyra sögur af drengjunum þínum.  Ég sem strákamamma þekki þetta allt.  Minn elsti byrjaði í fótbolta en hljóp yfirleitt í vestur þegar hinir fóru í austur svo sá ferill varð ekki mjög langur!  Góða helgi.  Kram Sigurlaug.

Sigurlaug (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband